Vopn afhent áður en uppreisnir hófust

Andstæðingar Gaddafis hafa notið stuðnings meðal vestrænna ríkja
Andstæðingar Gaddafis hafa notið stuðnings meðal vestrænna ríkja Reuters

Bandaríkin, Rússland og ýmis Evrópulönd hafa á undanförnum árum selt mikið magn vopna til  Mið-Austurlanda og Norður-Afríku. Vopn voru seld til ríkisstjórna, áður en uppreisn almennings í löndunum hófst, vopnin voru afhent þrátt fyrir að miklar líkur væru á að þau yrðu notuð til að fremja alvarleg mannréttindabrot. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International.

Í skýrslu sem Amnesty International hefur gefið út: „Arms Transfers To The Middle East And North Africa: Lessons For An Effective Arms Trade Treaty “ er greint frá vopnasölu til Barein, Egyptalands, Líbíu, Sýrlands og Jemen frá árinu 2005.

„Niðurstöður skýrslunnar sýna glögglega skort á raunhæfu eftirliti með vopnasölu og undirstika þörfina á alþjóðlegum vopnaviðskiptasáttmála sem tekur fullt tillit til að mannréttindi séu ætíð virt.

Stjórnvöld sem í dag segjast standa í samstöðu með fólki í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku eru mörg þau sömu og hafa nýlega afhent vopn, byssukúlur og ýmis tól og tæki sem voru og eru notuð til að drepa, særa og handtaka friðsama mótmælendur í löndum á borð við Túnis, Egyptaland, Sýrland og Jemen.

Í skýrslunni er sjónum beint að vopnasölu síðustu ára til Barein, Egyptalands, Líbíu, Sýrlands og Jemen. Austurríki, Belgía, Búlgaría, Tékkland, Þýskaland, Indland, Ítalía, Spánn, Sviss, Rússland, Tyrkland, Úkraína, Bretland og Bandaríkin hafa selt vopna og/eða annan búnað.

Skýrslan greinir ítarlega frá því hvaðan vopnin til einstakra landa koma og bendir á nauðsyn þess að leggja þurfi strangt mat á hvert vopn eru seld til að tryggja að þau verði ekki notuð til að fremja alvarleg mannréttindabrot," segir í tilkynningu frá Amnesty.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka