Óttast enn frekara atvinnuleysi

Reuters

Talið er að atvinnuleysi eigi eftir að aukast enn frekar í heiminum en nú er og óttast er að átök geti brotist víða út vegna þessa, samkvæmt nýrri aðvörun frá Alþjóða-vinnumálastofnuninni, International Labour Organization (ILO).

Telur ILO að það taki fimm ár hið minnsta þar til atvinnuástandið í þróuðum ríkjum verður orðið svipað og það var fyrir kreppuna. Í 45 af 118 löndum sem ILO rannsakaði eru taldar auknar líkur á uppreisnum.

Á sama tíma hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) varað við því að grípa verði til aðgerða hvað varðar ástand efnahagsmála heimsins. Leiðtogar G20 ríkjanna koma saman í Cannes fljótlega þar sem rætt verður um hvað sé hægt að gera.

OCDE hefur lýst því yfir að björgunaraðgerðirnar sem samþykktar voru af leiðtogum Evrópu 26. október sl. séu mikilvægt fyrsta skref en nauðsynlegt sé að halda áfram enda útlit fyrir að verulega dragi úr hagvexti á evru-svæðinu.

Fréttavefur BBC vísar í nýja skýrslu ILO þar sem fjallað er um þau neikvæðu áhrif sem kreppan hefur haft á atvinnuástandið í heiminum.

Í skýrslu OECD kemur fram að nú sé spáð 1,7% hagvexti í Bandaríkjunum í ár en 1,8% á næsta ári. Í Japan er spáð samdrætti í ár upp á 0,5% í ár en 2,1% hagvexti á næsta ári. Í Kína er spáð 9,3% hagvexti í ár en 8,6% á næsta ári. Á evru-svæðinu er spáð 1,6% hagvexti í ár en 0,3% á næsta ári. Í fyrri spá OECD var spáð 2% hagvexti í ár og á því næsta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert