William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, hvetur til þess að alþjóðasamfélagið pressi á Sýrlendinga um lýðræðisúrbætur og segir það vænlegra til árangurs en hernaðaraðgerðir.
„Ég efast um að utanaðkomandi hernaðaraðgerðir séu rétta leiðin,“ sagði Hague á fundi í Strasbourg, en þar komu ráðherrar Evrópuráðsins saman.
„Ástandið í Sýrlandi er talsvert flóknara en aðstæður í Líbíu áður en NATO hóf afskipti þar í mars,“ bætti hann við.
Hann segir að refsiaðgerðir gegn stjórn Bashar al-Assad séu eina leiðin til árangurs.
„Bretland myndi vilja fá samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir því að fordæma ofbeldið gegn sýrlenskum almenningi,“ sagði Hague.
Bæði Evrópusambandið og Bandaríkin hafa fordæmt aðgerðir sýrlenskra yfirvalda, en Rússar og Kínverjar felldu tillögu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að ráðið fordæmdi aðgerðir stjórnar Assads í október.
Þjóðarráð Sýrlands, sem er óformleg samtök mótmælenda, kallar eftir því að alþjóðasamfélagið verndi óbreytta borgara í landinu.
„Við verðum að dæma sýrlensk yfirvöld af gerðum þeirra, en ekki af orðum. Aðgerðir þeirra eru algerlega óviðunandi og eru algert brot á almennum mannréttindum,“ sagði Hague.