Sýrlensk stjórnvöld saka Bandaríkjamenn um að eiga beinan þátt í blóðugum átökum í landinu. Hafa þau sent Arababandalaginu bréf þess efnis og fara fram á að bandalagið fordæmi bandarísk stjórnvöld og geri það sem nauðsynlegt sé til þess að stöðva það.
Kemur fram í tilkynningu frá Arababandalaginu að Walid Muallem, utanríkisráðherra Sýrlands, hafi sent bandalaginu bréf þar hann sakar bandarísk stjórnvöld um að eiga hlut að máli í mótmælum sem geisað hafa í landinu frá því í mars.
Ekki var vikið frekar að því í bréfinu með hvaða hætti Bandaríkjamenn ættu að hafa skipt sér að átökunum í Sýrlandi.
Arababandalagið sakaði sýrlensk stjórnvöld í gær um að standa ekki við samkomulag sem gert var fyrir viku um að binda enda á blóðbaðið í landinu. Ætla utanríkisráðherra bandalagsins að koma saman á laugardag til þess að ræða framhaldið.