Ný ríkisstjórn kynnt í dag

Lucas Papademos
Lucas Papademos YIORGOS KARAHALIS

Grikkir munu tilkynna nýja ríkisstjórn í dag en leiðtogar stjórnmálaflokka þar í landi hafa setið á maraþonfundum síðustu þrjá daga til ná saman um nýja bráðabirgðastjórn eftir að George Papandreou tilkynnti að hann myndi segja af sér sem forsætisráðherra.

Samkvæmt heimildum innan gríska stjórnarráðsins er gert ráð fyrir að Papandreou gangi a fund Carolos Papoulias í dag og segi formlega af sér embætti. Leiðtogar stjórnmálaflokkanna verði síðan kallaðir saman og tilkynnt um nýja ríkisstjórn.

Gríska sjónvarpsstöðin Skai TV sagði í gærkvöldi, að búið væri að ná samkomulagi um að hagfræðingurinn Lucas Papademos verði forsætisráðherra bráðabirgðaþjóðstjórnar, sem verið er að mynda í landinu.

Papademos, sem er 64 ára, er fyrrverandi aðstoðarforstjóri seðlabanka Evrópu og fyrrum seðlabankastjóri Grikklands. Hann er þekktur í Evrópu og þykir líklegur til að auka tiltrú fjármálamarkaða á Grikklandi.  

Evrópusambandið sagði síðdegis í gær, að nauðsynlegt væri að stjórnmálaflokkar í Grikklandi, sem standa að myndum þjóðstjórnarinnar, gefi skriflega yfirlýsingu um að þeir fallist á björgunaráætlun, sem leiðtogar Evrópusambandsins sammæltust um fyrir rúmri viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert