Sérstakri þingnefnd á Bandaríkjaþingi, sem skipuð var þingmönnum Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins, tókst ekki að ná samkomulagi um hvernig ætti að standa að því að draga úr fjárlagahalla bandaríska ríkisins.
Þrátt fyrir það hefur matsfyrirtækið Standard & Poor's lýst því yfir að ekki verði gerð breyting á lánshæfismati bandaríska ríkisins, AA+, en fyrirtækið lækkaði einkunn ríkissjóðs þann 5. ágúst sl.
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá þeim Patty Murray, þingmanni demókrata og Jeb Hensarling, þingmanni repúblikana, sem sátu í nefndinni segir að þau séu afar vonsvikin yfir því að ekki tókst að ná samkomulagi í nefndinni um hvernig eigi að vinna á fjárlagahallanum og hvernig verði staðið að niðurskurði í ríkisfjármálum á næsta ári.