Saksóknarar Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag hittu Saif al-Islam, son Múammars Gaddafis, í Líbíu í dag en uppreisnarmenn tóku Saif höndum um helgina.
Talsmaður dómstólsins segir að saksóknari og aðstoðarsaksóknari dómstólsins hafi átt nokkurra klukkustunda fund með Saif í borginni Zintan þar sem hann er í haldi.
Dómstóllinn hefur gefið út handtökuskipun á hendur Saif en uppreisnarmenn í Líbíu vilja að réttað verði yfir honum þar í landi. Luis Moreno-Ocampo, saksóknari glæpadómstólsins, sagði við komuna til Líbíu í dag að það kæmi til greina ef réttarkerfið réði við slíkt.
Talsmaður alþjóðanefndar Rauða krossins sagði í dag að fulltrúi stofnunarinnar hefði vitjað Saifs al-Islam og að hann virtist vera við góða heilsu.
Múammar Gaddafi, fyrrum leiðtogi Líbíu og faðir Saifs, lét lífið skömmu eftir að uppreisnarmenn tóku hann höndum í október. Gaddafi lést af sárum sem hann hlaut en margt er á huldu um þá atburði.
Alþjóðaglæpadómstóllinn gaf einnig út ákæru á hendur Múammar Gaddafi, fyrrum einræðisherra í Líbíu, fyrir glæpi gegn mannkyninu. Dómstóllinn féll hins vegar formlega frá þeirri ákæru í dag eftir að hafa fengið dánarvottorð Gaddafis í hendur.