Ákall Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um breytingar á stofnsáttmálum Evrópusambandsins til þess að bregðast við skuldavanda evrusvæðisins leggur allt Evrópusambandið í hættu, segir Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar.
Í opnu bréfi til Merkel, sem birt var í þýska viðskiptablaðinu Handelsblatt, segir Asselborn: „Ef þú, kæri kanslari, færð þína ósk uppfyllta ... ekki gleyma hættunni á því að ESB falli um sjálft sig.“
Að sögn Asselborn er það „útópísk hugsun“ að halda því fram að hægt sé að gera „takmarkaðar“ breytingar á sáttmálanum, líkt og Merkel hefur óskað eftir.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú þegar lýst því yfir að hann muni nýta allar breytingar á stofnsáttmálunum til þess að „endurheimta“ völd frá Brussel til Lundúna.
Asselborn segir að ofan á allt þetta bætist óttinn við þjóðaratkvæðagreiðslur ef breytingar verða gerðar á stofnsáttmálunum. „Þarf ég að minna ykkur á þá staðreynd að Spánn og Lúxemborg voru einu ríkin sem sögðu „já“ við stjórnarskrá ESB árið 2005?,“ spurði hann Merkel og bætti við „Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu ræðst alltaf af skilaboðunum. Ef skilaboðin væru þau að leggja aðaláherslu á aðhald í ríkisfjármálum, þá eru líkurnar á sigri mjög litlar.“
Merkel hefur haldið því fram að besta leiðin til þess að bæta ástand hins lamaða evrusvæðis sé að gera „örlitlar“ breytingar á stofnsáttmálum ESB sem muni veita Brussel meira vald til þess að fylgjast með fjárlögum aðildarríkja ESB og refsa þeim ef þau brjóta reglur sambandsins.
Aðrir, þar á meðal ríkisstjórn Frakklands og framkvæmdastjórn ESB, vilja sameina skuldir evruríkjanna og veita Evrópska seðlabankanum aukin völd til þess að hafa afskipti af skuldabréfamörkuðum.
Merkel er nú á fundi með leiðtogum Frakklands og Ítalíu að ræða skuldavanda evrusvæðisins.