Þök fuku og bátar losnuðu

Færeyskir fjölmiðlar hafa birt þessa mynd frá slökkviliðinu í Fuglafirði …
Færeyskir fjölmiðlar hafa birt þessa mynd frá slökkviliðinu í Fuglafirði af báti sem slitnaði upp.

Fellibylur fór yfir Færeyjar í nótt, eitt mesta óveður sem hefur gengið yfir eyjarnar frá árinu 1988. Vindhraði var 53 metrar á sekúndu, þegar mest var. Þök fuku af húsum og skip losnuðu frá festum. Enn er mikill stormur í eyjunum, að sögn Runi Vesturklett, hjá lögreglunni í Þórshöfn í Færeyjum.

„Við vitum ekki til þess að neinn hafi slasast í veðrinu,“ sagði Runi í samtali við mbl.is. „Öllu skólahaldi hefur verið aflýst og allt flug og skipaferðir liggja niðri.“ Hann segir að nú sé vindhraði um 40 metrar á sekúndu og enn sé dimmt, þannig að erfitt sé að segja til um hversu mikill skaði hefur orðið.

„Við hjá lögreglunni höfum fengið um 300 símtöl og tilkynningar um ýmiskonar tjón; þök hafa fokið af húsum, skip og bátar losnað frá festum og trampólín hafa fokið um allan bæ. En margir hafa líka hringt í slökkviliðið og við vitum ekki hversu margar tilkynningar hafa borist þangað,“ segir Runi.

Hann segir að ekki sé hægt að sækja báta eða meta skaðann fyrr en birta tekur og veðrið hafi lægt, en samkvæmt veðurspá gæti það verið um hádegisleytið.

Óveðurslægðin, sem norska veðurstofan hefur nefnt Berit, stefnir nú á Norður-Noreg. Varar norska veðurstofan við væntanlegu óveðri og bendir einnig á að hætta sé á stormflóðum vegna þess að stórstreymt er á sama tíma og lægðin er væntanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert