Hugo Chavez, forseti Venesúela, ákvað fyrir nokkru að láta senda 85% af erlendum gullforða landsins, sem geymdur hefur verið í Evrópu, heim til Venesúela. Fyrsta sendingin kom til Carcas, höfuðborgar Venesúela, í dag. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikið magn var í þessari fyrstu sendingu, en gert er ráð fyrir að þegar upp verður staðið muni um 160 tonn af gulli hafa verið flutt, sem metin eru á meira en 11 milljarða dollara.
Gagnrýnendur hafa bent á að þessi aðgerð sé mjög kostnaðarsöm og óþörf, en Chavez ber því við að með þessu sé hann að vernda Venesúela fyrir því efnahagslega umróti sem heimurinn gengur nú í gegnum.
Flogið var með gullið til Carcas og þaðan flutt í seðlabanka landsins. Mikill viðbúnaður var við þessa aðgerð, en talið er að hundruð hermanna hafi tekið þátt í henni.
Andstæðingar Chavez hafa gagnrýnt þetta uppátæki og segja þetta vera leikrit sem eigi að auka vinsældir forsetans, en forsetakosningar fara fram þar í landi í október á næsta ári.
Þá hafa einhverjir sagt að Chavez sé að fyrirbyggja að erlendar eignir verði frystar með refsiaðgerðum rétt eins og kom fyrir hjá vini hans og bandamanni Muammar Gaddafi, fyrrum leiðtoga Líbýu.