Arababandalagið bíður nú svara frá sýrlenskum stjórnvöldum, eftir að bandalagið setti þeim afarkosti í gær. Bandalagið krefst þess að Sýrlendingar hleypi alþjóðlegum eftirlitsmönnum inn í landið til að fylgjast með mótmælunum í landinu og viðbrögðum stjórnvalda við þeim, að öðrum kosti muni víðtækum refsiaðgerðum verða beitt.
Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatti til harðari aðgerða gegn Sýrlendingum á föstudaginn og í gær var tilkynnt um að 23 hefðu látið lífið í mótmælum víðsvegar um landið.
Meðal þeirra refsiaðgerða sem Arababandalagið hyggst beita Sýrlendinga er ferðabann nokkurra háttsettra sýrlenskra embættismanna, þar á meðal bróður Assads Sýrlandsforseta, til landa bandalagsins, takmörkun á flugferðum til og frá Sýrlandi og frysting eigna sýrlenskra embættismanna.
Arababandalagið bauð Sýrlendingum að koma til borgarinnar Doha í Katar í dag og skrifa undir samþykki um að leyfa eftirlit í landinu. Forsætis- og utanríkisráðherra Katar, Sheikh Hamad bin Jassim Al-Thani, segir að enn sé beðið svars. „Sem Arabar erum við hrædd um að ef ástandið heldur áfram, þá verði það ekki lengur í okkar höndum að fást við það.“
Mótmæli hafa nú staðið yfir í Sýrlandi í átta mánuði. Fólkið krefst afsagnar Assads, forseta landsins. Á þessum tíma er talið að meira en 4000 manns hafi látið lífið í mótmælum og að tugþúsundir hafi verið fangelsaðir. Talið er að a.m.k. 12.400 Sýrlendingar hafi flúið land frá því að mótmælin hófust.