Manning fyrir dómara á morgun

Bandaríski hermaðurinn Bradley Manning, sem er sakaður um að hafa lekið mörg þúsund leyniskjölum bandarískra stjórnvalda til WikiLeaks, mun mæta í réttarsal á morgun í fyrsta sinn frá því hann var handtekinn.

Manning er sakaður um að hafa komist yfir skjölin þegar hann starfaði sem sérfræðingur á upplýsingasviði hersins í Írak. Hann var handtekinn í júní 2010 og hefur verið ákærður fyrir að „aðstoða óvininn“.

Lögmaðurinn Kevin Zeese, sem starfar fyrir stuðningsmannanet Mannings og er einn skipuleggjenda Occupy Washington DC, segir að það eigi ekki að sækja Manning til saka. Hann hafi aðeins sagt sannleikann. Manning sé ekki sakaður um að hafa framið glæp. Hann sé sakaður fyrir að hafa greint frá sannleikanum og í raun ætti að verðlauna hann fyrir það. Það eigi því að höfða mál gegn öðrum einstaklingum.

Zeese segir að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi sagt að Manning sé sekur. Þar sem hann sé æðsti embættismaður landsins og yfirmaður saksóknara og dómara þá sé ekki hægt að halda því fram að Manning muni hljóta réttláta málsmeðferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka