Dauði Muammars Gaddafis, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, kann að vera stríðsglæpur, að mati Alþjóðasakamáladómstólsins. Luis Moreno-Ocampo aðalsaksóknari segir dómstólinn hafa tekið málið upp við þjóðarráð Líbíu.
Gaddafi var tekinn höndum af uppreisnarmönnum í heimabæ sínum Sirte hinn 20. október og drepinn stuttu síðar. Þjóðarráðið sagði upphaflega að hann hefði dáið þegar skothríð braust út milli fylkinga, en hét því vegna þrýstings frá Alþjóðasamfélaginu að rannsaka dauða hans.
„Ég tel að það hvernig Gaddafi var drepinn veki grunsemdir um stríðsglæpi," hefur BBC eftir Moreno-Ocampo í dag. „Ég tel að þetta sé mikilvægt mál. Við höfum vakið máls á þessu við þarlend yfirvöld og þau eru að undirbúa umfangsmikla rannsókn á öllum þessum glæpum."