Lausn á því neyðarástandi sem ríkir í Sýrlandi á að byggjast á þeim tillögum sem Arababandalagið hefur lagt fram. Þetta segir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sem er nú staddur í Sýrlandi.
Hann segir að sýrlensk stjórnvöld séu reiðubúin að taka á móti enn fjölmennari sendinefnd sem myndi eftirlit með friðarferlinu í landinu. Þau séu jafnframt reiðubúin að dagsetja þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá landsins.
Bæði Rússar og Kínverjar hafa neitað að styðja ályktun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem sýrlensk stjórnvöld eru fordæmd. Nágrannaríki Sýrlands við Persaflóa hafa greint frá því að þau muni vísa sendiherrum Sýrlands úr landi.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að stjórnarherinn í landinu haldi áfram að gera þungar árásir á uppreisnarhópa í borginni Homs.
Mörg hundruð manns eru sögð hafa fallið frá því árásin á borgina hófst sl. föstudag. Aðgerðasinnar halda því fram að í gær hafi að minnsta kosti 95 látist í átökunum.