Öndunarmælar í öll ökutæki

Reuters

Frönsk stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á umferðaröryggi á undanförnum árum, með góðum árangri. Nú hafa verið samþykkt lög þess efnis að öndunarmælir sem mælir áfengismagn í blóði ökumanna skuli vera í öllum vélknúnum ökutækjum, sem eru í umferð þar í landi frá og með 1. júlí næstkomandi. Þar er átt við bæði bíla og bifhjól. Þetta kemur fram á vef Umferðarstofu.

Markmiðið er að tryggja að allir ökumenn viti hversu mikið áfengi er í blóði þeirra áður en þeir taka þá ákvörðun að aka af stað. Þetta á einnig við um ökutæki sem koma erlendis frá og verða mælar seldir við landmæri Frakklands.

Eina undantekningin eru hjól sem eru með mjög lítilli vél eða undir 50 kúbikum.

Hrina alvarlegra umferðarslysa og þar á meðal banaslysa, sem m.a. má rekja til ölvunar í upphafi árs 2011 hefur hvatt stjórnvöld til að grípa til þessara aðgerða og einnig var ákveðið að setja upp fleiri hraðamyndavélar á vegum landsins. Það er álit stjórnvalda að þessi lög leiði til þess að menn hugsi sig tvisvar um áður en þeir aka undir áhrifum áfengis á vegum landsins, segir á vef Umferðarstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert