Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, sagði í dag á minningarathöfn um hermennina þrjá sem Mohammed Merah er grunaður um að hafa myrt, að hermennirnir hefðu verið „teknir af lífi af hryðjuverkamanni“.
„Franskur hermaður þekkir dauðann og veit hvernig horfast ber í augu við hann en dauði okkar manna var ekki dauði, sem þeir höfðu undirbúið sig fyrir. Þeir dóu ekki á vígvelli, þeir voru teknir af lífi af hryðjuverkamanni.“
Minningarathöfnin fór fram í herstöð í Montauban. Umsátur um íbúð Mohammed Merah stendur ennþá yfir í Toulouse.
Sarkozu sagði að morðinginn hefði viljað „knésetja Frakkland“ en honum hefði mistekist og honum myndi einnig mistakast að tvístra landinu.
Lögregla telur að Merah hafi myrt hermennina þrjá og svo skotið þrjú börn og kennara til bana í gyðingaskóla í Toulouse á mánudag.
„Hafi ætlunin verið að ráðast á samfélög okkar, voru það hermenn, börn og franskir ríkisborgarar sem voru myrtir.“