Umsátrið stendur enn

Franska sjónvarpsstöðin Tv2 birti þessa mynd í kvöld sem fullyrt …
Franska sjónvarpsstöðin Tv2 birti þessa mynd í kvöld sem fullyrt er að sé af Mohamed Merah, hinum grunaða fjöldamorðingja. Reuters

Sprengjurnar þrjár sem sprungu fyrir utan íbúðina þar sem grunaður fjöldamorðingi hefur lokað sig af í Toulouse í Frakklandi fyrir klukkustund voru sprengdar til að setja þrýsting á manninn að gefast upp. Þetta staðfestir franska innanríkisráðuneytið. Lögreglan hefur legið í umsátri um íbúðina í tæpan sólarhring. Fjölmiðlar birtu myndir af morðingjanum í kvöld.

Maðurinn, Mohamed Merah, hafði sagst ætla að gefast upp en virðist hafa skipt um skoðun. Fjölmiðlar töldu hugsanlegt að sprengingarnar væru fyrirboði um að lögregla ætlaði að ráðast til inngöngu í íbúðina og hefðu jafnvel verið til þess gerðar að sprengja upp hurðina, enda hafði innanríkisráðherrann sagt í viðtali í kvöld að umsátrið gæti ekki staðið að eilífu. Allt hefur hinsvegar verið með kyrrum kjörum síðan og lögreglan bíður átekta. 

Vilja ná honum á lífi

Að sögn blaðamanns BBC í Toulouse hefur talsvert verið rætt um það á staðnum að ef lögregla ætli að ráðast til inngöngu verði það gert í skjóli myrkurs. Götuljós voru öll slökkt í nágrenninu fyrr í kvöld og sérsveitir frönsku lögreglunnar eru í viðbragðsstöðu. Það er nú komið fram yfir miðnætti í Frakklandi og umsátrið hefur staðið í tæpan sólarhring.

„Það sem við viljum er að ná honum á lífi svo við getum réttað yfir honum, komist að því hvað rak hann til þessara verka og vonandi komist að því hverjir samverkamenn hans eru, ef einhverjir," sagði innanríkisráðherra Frakklands, Gerard Longuet, í sjónvarpsviðtali á níunda tímanum í kvöld. 

„Umsátrið getur ekki staðið dögum saman, vegna líkamlegrar og andlegrar þreytu. Öll fyrri reynsla af sturluðum byssumönnum í þessum aðstæðum gefur til kynna að þeir gefist upp fyrr en síðar," sagði Longuet jafnframt.

Sérsveitarmenn lögreglu standa vörð í götunni þar sem hinn grunaði …
Sérsveitarmenn lögreglu standa vörð í götunni þar sem hinn grunaði fjöldamorðingi hefur lokað sig af inni í blokkaríbúð. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert