Sádiarabískar konur ekki til London

AFP

Formaður sádiarabísku ólympíunefndarinnar hefur ákveðið að þarlendar konur muni ekki taka þátt í Ólympíuleikunum í London í sumar.

Formaðurinn, prins Nawaf bin Faisal, sagði þó að þeim sádiarabísku konum sem vildu taka þátt á eigin spýtur væri frjálst að gera það, en yfirvöld myndu ganga úr skugga um að þátttaka þeirra bryti ekki í bága við sjaríalög múslíma.

„Við styðjum ekki þátttöku sádiarabískra kvenna í Ólympíuleikunum né öðrum alþjóðlegum íþróttakeppnum,“ sagði bin Faisal á blaðamannafundi í borginni Jeddah í gær. Hann sagði að þúsundir þarlendra kvenna iðkuðu íþróttir, en þær gerðu það ekki á almannafæri.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa fordæmt skipulagða útilokun kvenna frá keppnisíþróttum í Sádi-Arabíu.

Líklegt er talið að hin 18 ára gamla Dalma Malhas verði eini kvenkyns þátttakandinn frá Sádi-Arabíu á Ólympíuleikunum, en hún keppir í hestaíþróttum. Hún fer þá á eigin vegum, en ekki á vegum Ólympíusambands Sádi-Arabíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert