Inngrip vestrænna ríkja í Líbíu á síðasta ári hafði þær afleiðingar í för með sér að hundruð vel vopnaðra skæruliða af Tuareg-ættbálknum neyddust til þess að flýja yfir til Malí, en þar ríkir nú upplausnarástand.
„Það verður að segjast að aðalástæða alls þessa er inngrip Vesturlanda í Líbíu,“ sagði Eric Denece, formaður frönsku hugveitunnar CF2R, sem sérhæfir sig í rannsóknum á sviði varnarmála, í samtali við fréttaveituna AFP.
Þegar alræðisstjórn Gaddafis í Líbíu féll vegna uppreisnar sem naut stuðnings flugsveita á vegum NATO flúðu Tuareg-skæruliðar á hans vegum suður á bóginn yfir Sahara-eyðimörkina að fyrrum heimasvæðum sínum í Malí og Níger.
„Í fyrstu höfðu þessir fyrrverandi líbísku hermenn ekkert á móti Malí, en náttúran hefur ábeit á tómarúmi, og þeir urðu að finna sér eitthvað að gera svo þeir gengu í bandalag með skæruliðahópum á Malí, og sjáið hvar við erum nú stödd,“ bætti Denece við.
Á þeim tveim vikum sem liðnar eru síðan valdarán á vegum hersins í Malí olli upplausnarástandi hafa Tuareg-skæruliðar hertekið norður- og austurhluta landsins, þ.á m. borgir á borð við Gao og Timbuktu. Það sem veldur erlendum sérfræðingum mestum áhyggjum er það að íslamistar á vegum hryðjuverkahópsins Ansar Dine og hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda í hinu íslamska Maghreb (AQIM) berjast nú við hlið Tuareg-skæruliðanna.
Að sögn Denece hefðu Vesturlönd, og þá einkum Frakkland, átt að gera sér grein fyrir þessum afleiðingum gjörða sinna og bregðast við þeim fyrr en nú. „Utanríkisráðherra Malí, Soumeylou Boubeye Maiga, kom nánast á mánaðarfresti til Parísar til þess að ræða við franska utanríkisráðuneytið, forsetann og frönsku leyniþjónustuna (DGSE),“ sagði Denece í samtali við AFP og bætti við: „Hann sagði þeim: „Nú þegar þið hafið gripið inn í og skapað upplausnarástand, hvað gerið þið þá til að hjálpa okkur, þ.e. ríkjunum á þessu svæði? Inngrip ykkar breiddi út vopn og skæruliða þvert yfir Sahel. Þið vitið að við getum ekki barist við þetta fólk.“
Það er erfitt að meta hversu margir skæruliðar flóðu yfir Sahara-eyðimörkina í kjölfar uppreisnarinnar í Líbíu. Alsírski rithöfundurinn og sérfræðingurinn Mohamed Mokeddem telur þó að í það minnsta eitt þúsund Tuareg-skæruliðar hafi flúið yfir til Malí.