Rithöfundasamtök fordæmi Grass

Gunter Grass. Hann er einna þekktastur fyrir skáldsögu sína Blikktrommuna …
Gunter Grass. Hann er einna þekktastur fyrir skáldsögu sína Blikktrommuna frá árinu 1959. Reuters

Samtök hebreskra rithöfunda hafa nú krafist þess að Nóbelsverðlaunanefndin og PEN-rithöfundasamtökin fordæmi þýska rithöfundinn Gunter Grass vegna umdeilds kvæðis hans um Ísrael.

„Við erum harmi slegin yfir skammarlegri og ósiðlegri afstöðu Gunter Grass, sem felur í sér höfnun á Ísraelsríki og gyðingum, og köllum eftir því að rithöfundar um víða veröld fordæmi hana,“ sagði forseti rithöfundasambands hebreskra rithöfunda, Herzl Hakak í samtali við fréttastofu AFP.

„Við munum hafa sambandi við heimssamtök rithöfunda (PEN-samtökin) og Nóbelsverðlaunanefndina. Þau verða að tjá sig: málið er ekki pólitískt heldur siðrænt, því Grass er sekur um að vilja hvíþvo írönsk stjórnvöld af yfirlýsingum um þjóðarmorð.“

Grass, 84 ára, er Nóbelsverðlaunahafi og hefur sætt gagnrýni að undanförnu fyrir ljóð sitt Frásagnarskyldu [e. What must be said]. Í kvæðinu óttast ljóðmælandi að Ísraelsríki þurrki út írönsku þjóðina með kjarnorkuvopnum með því að „greiða fyrsta höggið“.

Grass var lýstur persona non grata í Ísrael í kjölfar birtingar kvæðisins. Mikil umræða hefur verið um kvæðið í Þýskalandi og sitt sýnist hverjum. Guido Westerwelle, utanríkisráðherra, sagði á sunnudag að Þjóðverjar væru skuldbundnir Ísraelum án þess þó að vísa beint til Grass en Daniel Bahr, heilbrigðisráðherra, lét hafa eftir sér að viðbrögð Ísraela við birtingu kvæðisins væru gjörsamlega hóflaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert