Fékk eitrun frá einnota grilli og lést

14 ára bresk stúlka lést um helgina í útilegu með foreldrum sínum og bróður en talið er að banamein hennar hafi verið kolsýringseitrun. Foreldrar hennar og bróðir urðu einnig fyrir eitrun og voru þau flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

Fólkið gisti í tjaldi á tjaldsvæði í nágrenni enska þorpsins Bucknell samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Eftir að hafa borðað með skyldfólki lagðist það til svefns en morguninn eftir fundu ættingjar fólksins það án meðvitundar í tjaldinu.

Gerðar voru lífgunartilraunir á stúlkunni en án árangurs. Eitrunin er rakin til einnota kolagrills sem var í tjaldinu á meðan fólkið svaf. Talið er að fólkið hafi annaðhvort reynt að nota það til þess að kynda tjaldið eða talið með röngu að slokknað hefði algerlega í því.

Fram kemur í fréttinni að ástand foreldranna sé stöðugt en drengurinn er enn á gjörgæslu.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert