Í réttarsal 250 í húsi héraðsdómsins í Ósló er haldið áfram að fara yfir dánarorsakir ungmennanna sem létust fyrir hendi fjöldamorðingjans Anders Behring Breiviks 22. júlí í fyrra. Í dag verður fjallað um tólf þeirra, þar af voru tvö einungis fjórtán ára.
Fyrirkomulagið er á þann veg að fyrst verða lagðar fram myndir af þeim stöðum þar sem fórnarlömbin fundust. Síðan greinir réttarlæknir frá Lýðheilsustöð Noregs frá dánarorsök hvers og eins. Myndir af fórnarlömbunum verða ekki sýndar á skjá í réttarsal.
Greint verður stuttlega frá lífshlaupi hvers og eins ungmennis.
Dóttir okkar er ekki tölustafur
Ungmennin sem rætt verður um í dag voru á aldrinum 14 - 18 ára. Tvö þeirra voru fjórtán ára, annað þeirra var Sharidyn Svebakk Bøhn.
Móðir hennar, Vanessa, er í viðtali við vefsíðu norska blaðsins Aftenposten í dag. „Dóttir okkar er ekki tölustafur og eitt af 77 nöfnum. Hún átti sér líf. Hún var tekin frá okkur á grimmdarlegan og tilgangslausan hátt 22. júlí í fyrra og það er enginn til að segja sögu hennar nema við,“ segir Vanessa.
„Mamma, mamma“
Vitni hafa greint frá því að Sharidyn hafi hlaupið undan morðingjanum, skelfingu lostin. Hún reyndi að hringja í lögregluna, en náði ekki sambandi. Í staðinn hringdi hún í mömmu sína. Þær töluðu saman í tæpar tvær mínútur áður en símtalið slitnaði. Breivik skaut stúlkuna er hún var að reyna að fela sig.
„Mamma, mamma. Það er maður sem skýtur á okkur hérna í Útey,“ voru síðustu orð hennar við móður sína.