Var með 13 cm orm í auganu

Indverskur maður var með 13 sentímetra langan orm í auganu.
Indverskur maður var með 13 sentímetra langan orm í auganu. mbl.is

Þegar eldri indverskur maður leitaði til læknisins V. Seetharaman vegna stöðugra verkja í auga grunaði hann ekki að þá mætti rekja til 13 sentímetra langs orms sem teygðist og kreppist á víxl undir slímhimnunni.

Seetharaman skoðaði manninn við komuna á Fortis-spítalann í Mumbai í síðustu viku. Honum brá þegar hann sá orminn og varð hann að bregðast skjótt við áður en sníkjudýrið ylli alvarlegum skaða.

„Hann hreyfðist fram og aftur undir augnslímhúðinni. Þetta var í fyrsta skipti á mínum 30 ára ferli sem ég sá annað eins,“ sagði Seetharaman við AFP-fréttaveituna.

Sjúklingnum hafði verið illt í auganu í um tvær vikur, það var rautt og hann fann fyrir miklum óþægindum í því. Eins og gefur að skilja varð hann mjög ringlaður og komst í nokkurt uppnám þegar Seetharaman greindi honum frá því að verkina mætti rekja til orms.

Í aðgerð sem tók aðeins 15 mínútur gerði Seetharaman lítið gat á slímhimnuna og fjarlægði orminn. Við hlið sjúklingsins stóð eiginkona hans, skelfingu lostin. Verkirnir hurfu um leið og aðgerðinni lauk og var ormurinn, sem lifði í 30 mínútur eftir aðgerðina, sendur á rannsóknarstofu spítalans.

Seetharaman sagðist aðeins hafa heyrt um að ormar, 2-3 sentímetrar á lengd, væru fjarlægðir. „Þetta er eflaust met,“ sagði hann og bætti við að ormurinn hefði mögulega komist inn í líkama sjúklingsins gegnum skurð á fæti eða sjúklingurinn hefði borðað hráan eða lítið eldaðan mat. Ormurinn hefði þannig komist út í blóðrásina og endað í auganu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert