42 hafa látist í hitabylgjunni

Búist er við að heldur dragi úr hitunum í dag …
Búist er við að heldur dragi úr hitunum í dag og á morgun. AFP

Að minnsta kosti 42 hafa látist í hitabylgjunni sem gengið hefur yfir suðvesturríki Bandaríkjanna síðustu daga. Svo heitt hefur verið að lestarteinar hafa sumstaðar aflagast í hitunum. Talsvert tjón hefur einnig orðið hjá kornbændum.

Hundruð hitameta hafa fallið síðustu daga. Víða hefur hitinn farið vel yfir 40 gráður. Sumir hafa þurft að fást við hitann án þess að eiga kost á loftkælingu því að rafmagn fór af fjölda heimila vegna óveðurs um síðustu helgi. Mörg heimili hafa verið án rafmagns í meira en viku.

Margir sem látist hafa eru eldri borgarar sem búa á heimilum án loftkælingar. Tíu hafa látist í Chicago í hitunum og 10 til viðbótar í Virginíu og Maryland. Fólk hefur einnig dáið í Wisconsin, Ohio, Pennsylvaníu og Tennessee. Fjögurra mánaða barn lést í Indiana eftir að það var skilið eftir í bíl við heimili sitt.

„Þetta er heitara en í helvíti,“ sagði ferðamaðurinn John Ghio í samtali við fréttastofu Reuters. Hann var þá fyrir utan Hvíta húsið í Washington.

Búist er við að heldur dragi úr hitunum í dag og á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka