Umskurður njóti lagaverndar

Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands.
Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands. Reuters

Þýskir þingmenn úr öllum flokkum kröfðust þess í dag að ríkisstjórnin setti lög sem tryggðu réttinn til umskurðar í kjölfar þess að dómstóll í Þýskalandi komst að þeirri niðurstöðu að slík aðgerð væri ígildi glæps.

Í yfirlýsingu frá þingmönnunum er ríkisstjórnin hvött til þess að setja lög í haust sem „tryggi að heimilt sé að umskera drengi á þann hátt sem stenst læknisfræðilegar kröfur og veldur ekki óþarfa sársauka“.

Dómstóll í Köln komst að þeirri niðurstöðu í júní að umskurður jafngilti í raun alvarlegum líkamsáverka. Angela Merkel, Þýskalandskanslari, sagði í kjölfar þess að dómsniðurstaðan var opinberuð að hætta væri á að Þýskaland yrði að athlægi vegna hennar.

Diplómatar hafa jafnframt viðurkennt að niðurstaða dómsins væri „stórslys“ hvað alþjóðlega ímynd Þýskalands varðaði, ekki síst í ljósi fortíðardrauga nasismans. Trúar- og stjórnmálahópar hafa skipst á að úthrópa niðurstöðuna. Stjórnmálaleiðtogar í Ísrael og í múslimalöndum hafa fett fingur út í hana sömuleiðis.

Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði áður en umræður um umskurðinn hófust í neðri deild þingsins að hann væri ánægður með að þingið ætlaði að „grípa til aðgerða á snöggan og afdráttarlausan hátt“.

„Yfirlýsingin sýnir að við búum í umburðarlyndu nútímasamfélagi. Enginn í heiminum myndi skilja það ef Þjóðverjar myndi banna ríkisborgurum sínum af trúflokki gyðinga að umskera drengi sína.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert