Vill Noreg úr Schengen

Jenny Klinge, þingmaður norska Miðflokksins.
Jenny Klinge, þingmaður norska Miðflokksins. Ljósmynd/Senterpartiet

Jenny Klinge, þingmaður fyrir Miðflokkinn í Noregi, vill að landið dragi sig úr Schengen-samstarfinu. Tilgangurinn er sá að reyna að stemma stigu við skipulagðri glæpastarfsemi sem hún segir þrífast undir Schengen. Þetta kemur fram í frétt thelocal.no um málið. 

Klinge segir að Noregur verði að ná stjórn aftur á eigin landamærum. „Schengen-sáttmálinn gerir það auðvelt fyrir glæpamenn að koma til Noregs.“ Síðustu misserin hefur verið mikil umræða um sígauna í Noregi og hefur Klinge verið á meðal þeirra sem hafa viljað banna betl í borgum Noregs. Nú vill hún að í stað Schengen muni Norðurlöndin koma sér saman um landamæravörslu.

„Við vitum að fórnarlömb mansals eru á meðal þeirra sem við sjáum nú betla á götunum. Það að taka aftur upp vegabréfaskoðun á landamærum Norðurlandanna myndi vera mun öflugri leið til þess að halda úti fólki sem tengist glæpasamtökum,“ segir Klinge, sem situr í dómsmálanefnd norska þingsins. Segir hún að skoða þurfi málið fljótlega í ljósi þess að Búlgaría og Rúmenía munu hugsanlega verða meðlimir í Schengen í haust. 

„Þá munu þeirra vandamál við landamæravörslu verða okkar vandamál. Þegar og ef þau ganga í Schengen verður erfitt fyrir norsku lögregluna að ráða við skipulögðu glæpastarfsemina sem við vitum að mun koma,“ sagði Klinge.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert