Nokkrum mánuðum fyrir innrás Bandaríkjanna í Afganistan 2001 gjöreyðilögðu hersveitir talíbana 1.500 ára gömul Búddalíkneski í Bamiyan dal. Ellefu árum síðar segja fornleifafræðingar að fornar menningarminjar séu lítt öruggari nú en í tíð talíbana og hefur verið gripið til þess ráðs að moka yfir sumar þeirra til að koma í veg fyrir að unnin verði skemmdarverk á þeim eða þeim stolið.
Mikil menningarverðmæti er að finna víðsvegar um Afganistan, enda lá hin forna Silkileið um landið og landvinningamenn á borð við Alexander mikla börðust þar um yfirráð.
Ómetanlegur fjársjóður undir tonnum af sandi
Neðan klettanna í Bamiyan dal þar sem Búddalíkneskin tvö stóðu öldum saman, um 130 kílómetrum vestur af höfuðborginni Kabúl, hafa ýmsar minjar fundist, þar á meðal brot úr þriðja Búddalíkneskinu frá hinu forna menningarsamfélagi Gandhara. Svæðið er á stærð við hálfan fótboltavöll og þar undir mörgum tonnum af sandi liggja grafin á annan tug líkneskja, misheillegra.
„Við grófum yfir þetta allt saman til þess að koma í veg fyrir þjófnað," segir Zemarylai Tarzi, 75 ára gamall fransk-afganskur fornleifafræðingur sem stýrir fornleifarannsóknum á svæðinu. Þarna er stundaður landbúnaður og segist Tarzi fyrst hafa grafið upp kartöflutún í leit að minjum, sem hann gróf síðan niður aftur. Allt í kring segir hann að liggi ómetanlegur fjársjóður, grafinn í jarðveginn.
Þjófnaður á öllum fornum menningarsvæðum Afganistans
Þriggja áratuga sleitulaus stríðsátök hafa komið í veg fyrir að hægt sé að rannsaka þessa merku gripi til hlítar og gera þá sýnilega. Brendan Cassar framkvæmdastjóri UNESCO, Mennta- vísinda og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan, segir að öruggast sé að láta forngripina liggja óhreyfða neðan jarðar. Hann segir ekki nokkra aðra leið til að gæta allra þeirra fjölmörgu fornsögulegu svæða sem er að finna víðsvegar í Afganistan.
Á meðan þeir eru neðanjarðar verða gripirnir ekki ræningjum og smyglurum að bráð og njóta auk þess verndar frá óblíðum vetrarveðrum. Fornleifafræðingar segja engu að síður að þjófnaður viðgangist, þótt í litlum mæli sé, á 99,9% allra fornminjasvæða í Afganistan. Fátækir heimamenn fá þá greiddar smá summur, 4-5 dali, frá þriðja aðila fyrir að grafa upp muni sem síðan er smyglað úr landi og þeir seldir fyrir háar upphæðir í helstu borgum Evrópu og Asíu.
Fræða þarf Afgana um arfleifð þeirra
Bamiyan dalurinn var settur á fornminjaskrá UNESCO árið 2003 í flokk minja sem hætta steðjar að. En fjölmargar fornminjar hafa verið eyðilagðar um allt landið. Sem dæmi má nefna Hadda í austurhluta Afganistan, þar sem mörg þúsund líkneski frá því á fyrstu öld fyrir Krist, og fram á fyrstu öld eftir Krist, voru eyðilögð í borgarastríðinu á 10. áratugnum.
Þá hefur hin forna borg Lashkar Gah, höfuðborg Helmand héraðs, orðið fyrir ómetanlegu tjóni vegna gríðarlegs straums flóttamanna þangað. Loks má nefna Logar hérað, suður af Kabúl þar sem er m.a. að finna ævagamalt Búddaklaustur. Kínversku koparnámufyrirtæki hefur verið veitt starfsleyfi og óttast vísindamenn að klaustrið verði skaddað.
Fornleifafræðingar gagnrýna að verndun menningarverðmæta mæti afgangi í Afganistan. Cassar telur að besta lausnin við þessu væri að mennta heimamenn og fræða þá um sögu landsins þeirra og arfleifð. Auk þess þurfi á alþjóðavísu að skera upp herör gegn smygli fornminja.