Miklar vonir bundnar við Ryan

Paul Ryan, varaforsetaefni Repúblikana.
Paul Ryan, varaforsetaefni Repúblikana. AFP

Ungur aldur Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, hefur verið talin ein af ástæðum þess að hann náði kjöri árið 2008, Bandaríkjamenn hafi einfaldlega verið tilbúnir til að yngja upp í Hvíta húsinu. Repúblikanar binda miklar vonir við að Paul Ryan, varaforsetaefni þeirra, ljái framboðinu þann æskuljóma sem þeir telja nauðsynlegan.

Tveir þriðju allra kjósenda yngri en 30 ára kusu Obama fyrir fjórum árum.

Ryan er 42 ára þingmaður frá Wisconsin. Verði Mitt Romney kjörinn forseti, verður Ryan yngsti varaforseti landsins frá því að Nixon varð varaforseti Eisenhowers árið 1952, þá 39 að aldri. 

Forsetaefnið Romney er 65 ára og ólst upp á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina við talsvert aðrar aðstæður en Ryan. 

Paul Ryan var kjörinn á Bandaríkjaþing þegar hann var 28 ára. Frami hans hefur verið skjótur og hefur hann verið kallaður ein af helstu vonarstjörnum bandarískra stjórnmála, en hann hefur viljað breyta vinnubrögðum á þingi og komið með nýjar leiðir til að leysa efnahagsvandann.

Höfðar til ungra kjósenda

Að auki þykir hann höfða til almennings, sér í lagi ungra kjósenda, en margir ungir Bandaríkjamenn standa nú frammi fyrir því að fá ekki atvinnu þegar þeir útskrifast úr háskólanámi. Ungt fólk hefur orðið meira fyrir barðinu á ótryggu atvinnuástandi heldur en margir aðrir og þykir mörgum sem Obama hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar.

„Margt ungt fólk sem ég þekki kaus Obama vegna þess að hann var svalur, spilaði körfubolta og var vinur rapparans Jay Z,“ segir Brian Hood, tvítugur Bandaríkjamaður, sem kýs nú í fyrsta sinn. „Ég held að Ryan sé svipaður. Hann stundar líkamsrækt og veiðir fisk með berum höndum.“

Paul Ryan.
Paul Ryan. AFP
Paul Ryan.
Paul Ryan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert