Líkti repúblikönum við Göbbels

Jósef Göbbels var áróðursmeistari nasista.
Jósef Göbbels var áróðursmeistari nasista.

Háttsettur demókrati í Bandaríkjunum sætir nú harðri gagnrýni eftir að hann líkti repúblikönum við hinn alræmda áróðursmeistara nasista, Jósef Göbbels.

John Burton, formaður Demókrataflokksins í Norður-Karólínu, sakaði repúblikana um að bera lygar á borð í baráttu sinni fyrir forsetaembættinu. „Þeir ljúga og þeim er sama þótt fólk viti að þeir ljúgi... Jósef Göbbels... þetta er allt saman ein stór lygi, haldið bara áfram að endurtaka hana,“ sagði Burton í viðtali við San Fransisco Chronicle.

Ummælin drógu fljótlega dilk á eftir sér og hafa m.a. verið fordæmd af félagi gyðinga innan Repúblikanaflokksins. „John Burton ætti að vita betur en að draga nasista og fórnarlömb þeirra inn í stjórnmálaumræðuna í dag, en greinilega skiptir það, hve særandi slík ummæli eru fyrir eftirlifendur Helfararinnar og fjölskyldur þeirra, hann minna máli en vonin um að ná auknu fylgi.“

Úr herbúðum Baracks Obama voru menn fljótir að sverja ummælin af sér og segir talsmaður baráttu forsetans fyrir endurkjöri að þau endurspegli ekki viðhorf forsetans og eigi ekki erindi í pólitískar rökræður.

Auk þess að nefna Göbbels til sögunnar kallaði Burton varaforsetaefni repúblikana, Paul Ryan, „hestsrassgat“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka