Lögreglan í Suður-Afríku skaut gúmmíkúlum á mótmælendur við platínunámu fyrirtækisins Anglo American. Eigendur verksmiðjunnar hafa fyrirskipað verkafólkinu að hætta verkfalli sem þeir segja ólöglegt en deilt er um kaup og kjör. Samið hefur verið við verkafólkið í Lonmin-verksmiðjunni og nú vilja starfsmenn annarra verksmiðja fá svipaða samninga.
Verkafólkið í Lonmin-verksmiðjunni hafði verið í verkfalli vikum saman og féllu 45 manns í átökum við lögregluna fyrir nokkrum vikum. Nú eru eigendur annarra verksmiðja hræddir um að fordæmið sem eigendur Lonmin hafa gefið eigi eftir að vekja reiði og auka kröfur starfsmanna.