Utanríkisráðherra Tyrklands segir að ólöglegur farmur hafi verið um borð í sýrlenskri farþegaflugvél sem var skipað að lenda í Tyrklandi í gærkvöldi.
Ahmet Davutoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir að lagt hafi verið hald á hluti sem hafi verið um borð í vélinni áður en hún fékk leyfi til að hefja sig til flugs á ný.
Tyrknesk yfirvöld sendu herþotur á loft til að stöðva farþegavélina, sem var að fljúga frá Moskvu í Rússlandi til Damaskus í Sýrlandi. Talið er að hergögn hafi verið í vélinni, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.
Eftir að fimm almennir borgarar í Tyrklandi féllu fyrir sprengikúlum sýrlenska hersins í síðustu viku þá hefur spenna einkennt samskipti ríkjanna.
Tyrkir svöruðu árásinni með því að skjóta yfir landamærin til Sýrlands. Það var í fyrsta skipti sem Tyrkir bregðast við með þessu hætti frá því uppreisnin gegn Sýrlandsstjórn hófst í fyrra.
Davutoglu vildi ekki greina frá því hvort einhver vopn hefðu fundist um borð í vélinni, en leit stóð yfir í margar klukkustundir.
„Það er ólöglegur farmur um borð í vélinni sem menn hefðu átt að greina frá,“ sagði hann í samtali við tyrknesku fréttastofuna Anatolia.
Óstaðfestar fréttir í Tyrklandi herma að á meðal þess sem lagt hafi verið hald á séu kassar með fjarskiptabúnaði fyrir heri. Um 30 farþegar voru um borð í vélinni sem er af gerðini Airbus A320.