Engan sakaði þegar skotið var á kosningaskrifstofu Baracks Obama Bandaríkjaforseta í borginni Denver í Coloradoríki í nótt, um miðjan dag að staðartíma. Fólk var að störfum á skrifstofunni þegar skotið var og brotnaði gluggi á framhlið hússins sem hýsir skrifstofuna.
Ekki er vitað hver var að verki, en málið er í rannsókn lögreglu. Talsmenn forsetans hafa ekki tjáð sig um atvikið.
Nú er lokasprettur kosningabaráttunnar hafinn, en Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu þann 6. nóvember. Næstu kappræðna þeirra Obama og Mitts Romneys, forsetaefnis Repúblikanaflokksins, er beðið með mikilli eftirvæntingu, en þeir mætast í New York á þriðjudaginn, 16. október og síðara skiptið verður í Flórída 22. október.