Óttast að Sandy dragi úr kjörsókn

Stuðningsmenn Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, óttast að fellibylurinn Sandy komi til með að draga úr kjörsókn í forsetakosningunum 6. nóvember og þar með úr sigurlíkum forsetans.

Stuðningsmenn Obama hafa hvatt kjósendur til að kjósa utankjörfundar. Sjálfur er hann búinn að kjósa, en með því er talið að hann hafi viljað hvetja stuðningsmenn sína til að kjósa sem fyrst.

David Axelrod, einn af ráðgjöfum Obama í kosningabaráttunni, segist viss um að Obama muni hagnast á góðri kosningaþátttöku. Ef fellibylurinn leiði til þess að færri kjósi séu það slæmar fréttir fyrir Obama.

Óttast er að mikið tjón verði þegar Sandy gengur yfir ríki á austurströnd Bandaríkjanna. Líklegt er að áhrifin verði ekki síst röskun á samgöngum og rafmagnsleysi. Þegar Irena gekk yfir austurströndina í fyrra tók marga daga að koma rafmagni aftur á öll heimili.

Ef tjónið verður mikið í óveðrinu er hætt við að margir kjósendur einbeiti sér að öðrum hlutum en að nýta kosningaréttinn.

Margir hafa leitað skjóls í neyðarskýlum.
Margir hafa leitað skjóls í neyðarskýlum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert