Beittu HIV veiru gegn hvítblæði

Læknar í Bandaríkjunum segjast hafa náð að bjarga lífi 7 ára stúlku sem þjáðist af hvítblæði með því að nota HIV veiru sem búið var að breyta á tilraunastofu.

Stúlkan var talin nærri dauða en lífi þegar læknar reyndu þessa óhefðbundnu aðferð sem enn er á tilraunastigi.

Hugmyndin er að láta hart mæta hörðu og að láta HIV frumurnar drepa krabbameinsfrumurnar með „skyndilegri árás“ segir í frétt frá AFP.

Búið er að fjarlægja úr HIV veirunni eiginleika hennar til þess að breytast í eyðni og samkvæmt læknum var aldrei hætta á því að stúlkan myndi sýkjast af HIV þar sem búið var að fjarlægja „nema“ sem valda sýkingu.

Eftir erfiða meðferð sem hófst í febrúar tók ónæmiskerfi hennar að styrkjast.

„Við finnum ekki vott af hvítblæði í henni núna. Jafnvel nákvæmustu rannsóknir okkar sýna ekki neitt.“, segir Stephen Grupp, einn af læknum stúlkunnar í samtali við ABC sjónvarpsstöðina.

Hann áréttar þó að ekki sé hægt að tala um að hún sé læknuð af krabbameininu fyrr en hún hefur verið einkennalaus í tvö ár.

Vonir standa til þess að meðferðin muni með tíð og tíma koma í stað beinmergsskipta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert