Hópur kaþólikka í borginni San Fernando á Filippseyjum fetaði í fótspor Jesú Krists í morgun með því að láta krossfesta sig að viðstöddum fjölda manna. Þetta er árviss viðburður á Filippseyjum, en fólkið leggur margt á sig til að upplifa síðustu stundir Krists, það lætur húðstrýkja sig áður en það er neglt á krossa sem reistir eru upp.
Að minnsta kosti 18 létu krossfesta sig, en hettuklæddir menn gengu um götur borgarinnar með svipur sem þeir húðstrýktu sig með þannig að blóðið slettist á viðstadda. Kaþólska kirkjan hefur lýst yfir vandlætingu sinni á þessum aðförum, en þeir sem láta krossfesta sig eru sannfærðir um að þeir fái „gjöf frá guði“ í staðinn, eins og t.d. að nánir ættingjar þeirra nái heilsu.
„Ég er orðinn vanur þessu,“ sagði hinn 58 ára gamli Alex Laranang í samtali við AFP-fréttastofuna, en hann lét nú krossfesta sig í 14. sinn. Hann starfar að öllu jöfnu við að selja ferðamönnum brauðbollur og gerir lítið úr sársaukanum. „Þetta er eins og að láta stinga sig með nál og ég er yfirleitt tilbúinn að snúa til vinnu eftir tvo daga,“ segir Laranang og segir að vegna krossfestinga sinna séu bæði eiginkona hans og börn við hestaheilsu.
Að minnsta kosti tveir af þeim sem létu krossfesta sig voru teknir niður og bornir á brott á sjúkrabörum á meðan ferðamenn smelltu af í gríð og erg, en margir leggja leið sína til Filippseyja í þeim tilgangi að berja krossfestingarnar augum.