Fjölmiðlar vestanhafs loga af fréttum og viðbrögðum við ummælum Baracks Obama forseta um ríkissaksóknara Kaliforníu sem mörgum þykja lykta af kvenfyrirlitningu. Obama sagði saksóknarann Kamölu Harris „myndarlegasta ríkissaksóknarann í landinu“. Hann bað saksóknarann síðar afsökunar á ummælum sínum.
Fólk er ýmist á því að ummælin hafi verið full kvenfyrirlitningar eða að það hafi verið rangt af forsetanum að biðjast afsökunar á slíku „smáatriði“.
Dálkahöfundur Washington Times segir að ummælin séu til marks um að Obama sé mannlegur.
Jennifer Rubin spyr í Washington Post hvort allir séu hreinlega gengnir af göflunum. Hún segir að forsetinn hafi verið þvingaður til að biðjast afsökunar.
„Íhaldsfólk ætti að átta sig á því að það er fullt af raunverulegum hlutum til að kvarta yfir og margt af þessu bulli lætur þá líta út fyrir að vera enn í grunnskóla,“ skrifar hún. Þá vandar hún vinstra fólki ekki heldur kveðjurnar. „Þeir ættu ekki að vera undrandi á því að ungar konur vilji ekki kalla sig femínista. Ef „gullhamralöggan“ mætir á svæðið í hvert einasta skipti sem hrósyrði falla, nú þá til fjandans með femínisma.“
Amanda Marcotte skrifar í Slate að reiðin vegna ummælanna sé réttlát. Sýnt hafi verið fram á með rannsóknum að velmeinandi gullhamrar ýti undir þá ímynd að konur séu annars flokks þegnar. Þeir séu notaðir til að fá konur til að spila með ofríki karla. „Vel meinandi misrétti virkar mun betur en fjandsamlegt. Það er því ekki að undra að svo margir verji það með kjafti og klóm,“ skrifar hún.
Robin Abcarian hjá Los Angeles Times spyr hvort að það að segja hið augljósa geri forsetann sjálfkrafa fordómafullan? Hann bæti svo við: „En engu að síður. Látum ekki eins og fegurð sé ekki bónus í pólitík, sérstaklega fyrir konur sem ganga fína línu á milli þess að vilja vera aðlaðandi og að vilja ekki vera dæmdar fyrir útlit sitt.“
Patt Morrison, kollegi hans LA Times er þessu ósammála og skrifar: „Hversu oft hafa konur ekki þurft að engjast á meðan karlar segja svona hluti, klaufalega tilburði til gullhamra sem á endanum hljóma vandræðalega og jafnvel niðurlægjandi?“
Og blaðamaður New York Magazine, Dan Amira, segir forsetann gæta jafnréttis í gullhömrum sínum. Hann hafi oftsinnis hrósað fólki fyrir útlit, aðallega körlum. „Hann kallar fólk myndarlegt, karla, konur og mörgæsir - þetta er bara eitthvað sem hann gerir.“