Karlmaður framdi sjálfsvíg fyrir framan altari Notre Dame-dómkirkjunnar í París, höfuðborg Frakklands, í dag og rýmdi lögregla kirkjuna í kjölfarið. Fram kemur í frétt AFP að maðurinn hafi verið á sjötugsaldri og stytti hann sér aldur með skammbyssu um klukkan 14 að íslenskum tíma.
Ekki liggur fyrir hversu margir voru í kirkjunni þegar þetta átti sér stað samkvæmt fréttinni eða hvað hafi valdið því að maðurinn kaus binda enda á líf sitt. Síðastliðinn fimmtudag skaut karlmaður á fimmtugsaldri sig til bana í grunnskóla skammt frá Eiffel-turninum fyrir framan hóp barna.