Rob Ford biðst afsökunar á munnmaka-ummælum

Rob Ford, borgarstjóri Toronto í Kanda, (annar frá vinstri) virðist …
Rob Ford, borgarstjóri Toronto í Kanda, (annar frá vinstri) virðist einkar laginn við að koma sér í vandræði. AFP

Rob Ford, borgarstjóri Toronto í Kanada, hefur beðist afsökunar á ruddalegum ummælum sem hann lét falla í beinni sjónvarpsútsendingu þegar hann neitaði að hafa boðist til að stunda munnmök með samstarfskonu sinni.

Ford, sem er afar umdeildur, segist hafa í samtali við fjölmiðla notað „óafsakanlegt orðbragð“.

Hann hefur jafnframt hótað að fara í mál við fyrrum starfsmenn sem hafa stigið fram til að tjá sig um neyslu Fords á áfengi og fíkniefnum, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins. 

Þetta er nýjasta hneykslismálið sem hinn 44 ára borgarstjóri er nú flæktur í, en hann viðurkenndi í síðustu viku að hann hefði reykt krakk. 

Fram kemur í lögregluskýrslum, sem voru birtar á miðvikudag, að samstarfsmenn borgarstjórans hefðu sakað Ford um að aka bifreið undir áhrifum áfengis, kynþáttaníð, hótanir gagnvart starfsfólki, fyrir að hafa átt í sambandi við meinta vændiskonu og fyrir að hafa tjáð sig með kynferðislegum hætti gagnvart samstarfskonu. 

Ford sagði við blaðamenn í gærmorgun að þessar ásakanir væru „hrein og klár lygi“. Hann viðurkenndi aftur á móti að hann hefði mögulega ekið bifreið eftir að hafa drukkið áfengi. 

Fréttamenn tóku hins vegar andköf þegar Ford missti algjörlega stjórn á sér og hafði uppi mjög dónaleg og ruddaleg ummæli er hann neitaði að hafa í eitt skipti boðist til að eiga munnmök við fyrrverandi samstarfskonu sína. 

Ford, sem er faðir tveggja lítilla barna, sagði að hann væri „hamingjusamlega giftur“ og sagði mjög ruddalega að hann stundaði alveg nóg af munnmökum heima hjá sér. 

Síðar í gær kom Ford opinberlega fram með eiginkonu sína, Renötu Ford, sér við hliið til að biðjast afsökunar á þessum ummælum sínum.

Hann sagði að það hefði verið sótt að sér og efast um heiðarleika hans sem föður og eiginmanns. Við það hefði hann snöggreiðst. 

„Ummæli mín bera vott um fullkomna hvatvísi,“ sagði Ford. Hann upplýsti jafnframt á blaðamannafundinum að hann hefði leitað sér aðstoðar hjá heilbrigðisstarfsfólki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka