Þingmaður stunginn og sonurinn látinn

Lögreglan er með málið til rannsóknar. Mynd úr safni.
Lögreglan er með málið til rannsóknar. Mynd úr safni. AFP

Bandarískur öldungadeildarþingmaður frá Virginíu liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir hnífstunguárás á heimili sínu. Lögreglan segir að sonur þingmannsins hafi fundist látinn á heimilinu, en hann var skotinn til bana.

Öldungadeildarþingmaðurinn Creigh Deeds, sem er fyrrverandi frambjóðandi til ríkisstjóra, var stunginn margsinnis, en hann hlaut m.a. áverka á höfði og á búk. Hann er í lífshættu að sögn lögreglu. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Lögreglan segir að Gus Deeds, sem var 24 ára, hafi fundist látinn í húsinu, en hann er sonur þingmannsins. 

Að sögn lögreglu stendur ekki yfir leit að meintum árásarmönnum. 

Rannsóknarlögreglumenn hafa ekki viljað tjá sig um það hvort sonurinn hafi sjálfur veitt sér banvæna áverka. 

Þingmaðurinn liggur nú á sjúkrahúsi í Charlottesville.

Boðað var til blaðamannafundar vegna málsins í dag. Þar kom fram að lögreglan hefði fengið neyðarboð kl. 07.25 að staðartíma (kl. 12.25 að íslenskum tíma). Fram kom að Deeds hefði getað talað við lögreglumennina sem komu á vettvang og greint þeim frá því sem hefði gerst.

Lögreglan ætlar ekki að birta upptöku af símtalinu sem barst til bandarísku neyðarlínunnar vegna málsins. 

Deeds sem tók sæti fyrir Demókrataflokkinn í öldungadeildinni árið 2001. Hann er fulltrúi Bath-sýslu sem er í vesturhluta ríkisins. 

Árið 2009 bauð hann sig fram gegn núverandi ríkisstjóra, repúblikananum Bob McDonnell, en Deeds hafði ekki erindi sem erfiði. 

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Creigh Deeds liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Creigh Deeds liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert