Kannabisneytendur fögnuðu á nýársdag þegar Colorado varð fyrsta ríkið í Bandaríkjunum til að heimila sérstökum verslunum að selja marijúana sem vímuefni eða í lækningaskyni. Yfirvöld í Colorado hafa veitt alls 348 leyfi til að selja marijúana í smásölu, meðal annars í litlum marijúanaverslunum. Leyft verður að opna slíkar verslanir í Washingtonríki í júní.
Íbúar Colorado og Washingtonríkis samþykktu tillögu um að leyfa sölu á marijúana sem vímuefni, ekki aðeins í lækningaskyni, í almennum atkvæðagreiðslum í nóvember 2012. Seinna voru sett lög sem heimila marijúanaverslanir og þau tóku gildi á nýársdag.
Andstæðingar laganna segja að þau geti orðið til þess að neysla á marijúana aukist og fleiri ánetjist vímuefninu. Marijúananeysla geti skaðað heilsuna og leitt til geðrænna vandamála, auk þess sem hún auki líkurnar á því að fólk leiðist út í neyslu á hættulegri vímuefnum.
Bandarísk samtök, sem beita sér fyrir því að marijúana verði leyft, fögnuðu hins vegar gildistöku laganna í Colorado og sögðu að ljóst væri að fleiri ríki myndu setja slík lög, það væri aðeins spurning um tíma.
„Þetta verður til þess að störfum fjölgar, tekjur ríkisins aukast, ferðafólki fjölgar og ný atvinnugrein þróast í Colorado,“ sagði Rachel Gilette, lögfræðingur samtakanna National Organization for the Reform of Marijuana Laws (NORML).
Embættismenn í Colorado áætla að skatttekjur ríkisins vegna sölu á marijúana nemi um 67 milljónum dollara á ári, eða sem nemur tæpum átta milljörðum króna.
Yfirvöld í Colorado heimiluðu fyrst fyrirtækjum að selja marijúana í lækningaskyni árið 2010. Samtök marijúanafyrirtækjanna segja að mikill straumur ferðamanna, sem kaupi marijúana, geti orðið til þess að skortur verði á fíkniefninu í Colorado. „Það er erfitt að spá um hvort hægt verði að anna eftirspurninni, einkum vegna þess að það er erfitt að meta hvaða áhrif ferðamenn hafa á þennan markað,“ sagði Michael Elliot, formaður hagsmunasamtakanna.
Kannabisræktendur og marijúanakaupmenn hugsa sér gott til glóðarinnar. Nokkur fyrirtæki bjóða nú þegar upp á sérstakar marijúanaferðir til Colorado, sem er einkum þekkt fyrir skíðastaði og tilkomumikla fjallanáttúru.
„Fólk flykkist hingað hvaðanæva, bara vegna þessarar nýlundu,“ sagði Adam Raleigh, hjá kannabisfyrirtækinu Telluride Bud Co.
Marijúana hefur þegar verið leyft í lækningaskyni í 19 ríkjum Bandaríkjanna og í nokkrum þeirra hefur efnið verið leyft í 20 ár. Í flestum þessara ríkja er neysla á marijúana sem vímuefni ekki skilgreind sem glæpur.
Samkvæmt lögunum í Colorado og Washingtonríki eiga yfirvöld að hafa eftirlit með ræktuninni, dreifingunni og sölunni á marijúana.
Markaðurinn er mjög stór. Salan á marijúana í lækningaskyni nam 1,4 milljörðum dollara á nýliðnu ári, eða rúmum 160 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að hún aukist um 60% í ár, eða í 2,34 milljarða dollara, eða 270 milljarða króna.
Gert er ráð fyrir því að yfir 300 marijúanaverslanir verði opnaðar í Washingtonríki í júní.
Frétt mbl.is: Skíða- og maríjúanaferðir í einum pakka
Frétt mbl.is: Skakkir í skíðabrekkunum