Evrópusambandið mun endurskoða tengsl við Sviss í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi um að takmarka aðgengi innflytjenda að landinu.
Alls studdu 50,3% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni að takmarka heimildir fólks til að flytja til Sviss. Landið er ekki aðili að ESB en nágrannaríkin eru hins vegar öll innan ESB.
Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar getur haft áhrif á viðskipti milli ESB og Sviss en það var svissneski þjóðarflokkurinn, sem vill stemma stigu við straumi innflytjenda í landinu, sem beitti sér fyrir atkvæðagreiðslunni.
Í tilkynningu sem ESB hefur sent frá sér kemur fram að niðurstaðan verði skoðuð og samskipti sambandsins og Sviss endurskoðuð í heild. Utanríkisráðherrar ríkja ESB munu hittast á fundi í Brussel í dag en ekki hefur verið upplýst hvort þjóðaratkvæðagreiðslan verði rædd á fundinum.
Wolfgang Schäuble, utanríkisráðherra Þýskalands, helsta viðskiptalands Sviss, segir að niðurstaðan eigi eftir að skapa ýmis vandamál í álfunni en hún sýni ótta við alþjóðavæðingu Evrópu.
Didier Burkhalter, utanríkisráðherra Sviss, segist munu heimsækja höfuðborgar ríkja ESB á næstunni þar sem hann mun fara yfir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Fyrsti viðkomustaðurinn verði Berlín.
Í blaðinu Le Temps kemur í dag fram að það séu einkum þýskumælandi íbúar á strjálbýlum stöðum sem hafi greitt atkvæði með hertum reglum um innflytjendur en frönskumælandi íbúar, einkum í borgum landsins, hafi greitt atkvæði gegn tillögunni.
Sviss og ESB eru með tvíhliða samninga um aðgang að innri markaði sambandsins. Sviss er ekki hluti af EES-samstarfinu og hefur því ekki þurft að innleiða jafnmargar reglur og ESB- og EES-ríkin. Sviss er eina EFTA-ríkið sem er ekki aðili að EES-samningnum.
Árið 1992 hófst fyrsta lota viðræðna um gerð tvíhliða samninga milli ESB og Sviss og náðist samkomulag á sjö sviðum. Samið var um frjálst flæði fólks, vegaflutninga, flugumferð, sölu á landbúnaðarafurðum, afnám tæknilegra viðskiptahindrana, opinber innkaup og rannsóknir. Það tók hins vegar langan tíma að ganga frá samningunum, en þeir tóku ekki gildi fyrr en árið 2002. Svisslendingar fengu þar með aðgang að innri markaði ESB, tæpum áratug á eftir EFTA/EES-ríkjunum sem höfðu verið hluti hans síðan 1994. Annarri lotu viðræðna um gerð tvíhliða samninga milli Sviss og ESB lauk árið 2004. Þá var samið um þátttöku Sviss í Schengen-samstarfinu en einnig náðist samkomulag um samstarf á vettvangi efnahagssvika og um innleiðingu hluta af regluverki ESB, sem sneri að landbúnaði, umhverfismálefnum, fjölmiðlum, menntun, réttindum aldraðra, tölfræði og þjónustu, í svissneska löggjöf, samkvæmt Evrópuvefnum.