Bjóða Úkraínumönnum aðstoð

Vopnaðir hermenn í borginni Donetsk í Úkraínu.
Vopnaðir hermenn í borginni Donetsk í Úkraínu. Alexander KHUDOTEPLY

Evrópusambandið mun hjálpa Úkraínumönnum að greiða þá tvo milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 226 milljarða íslenskra króna, sem þeir síðarnefndu skulda rússneska orkurisanum Gazprom. Þetta sagði Guenther Oettinger, orkumálastjóri Evrópusambandsins, í dag.

„Úkraínska ríkisgasfélagið Naftogaz skuldar Gazprom tvo milljarða Bandaríkjadala og við ætlum að hjálpa þeim að borga reikninginn,“ sagði hann.

Evrópusambandið er reiðubúið að veita ríkisstjórn Úkraínu efnahagsaðstoð vegna ástandsins sem ríkir í landinu. Nú þegar hafa þeir ábyrgst 610 milljóna evra, jafnvirði 94,9 milljarða króna, í aðstoð en líklegt þykir að þeir muni auka aðstoð sína sem nemur 500 milljónum evra, sem jafngildir 77,8 milljörðum króna, ef leikar æsast á Krímskaga.

Þá hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum sagst ætla að veita úkraínskum stjórnvöldum lán upp á einn milljarð Bandaríkjadala. Jafnframt er búist við því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti Úkraínumönnum lán upp á 15 milljarða dala í ár.

Bandarískir embættismenn sögðu að tilgangurinn með þessari lánveitingu væri sá að koma á stöðugleika, allavega til styttri tíma litið, í efnahagslífi Úkraínu. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, íhugar einnig að beita stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklinga í Rússlandi viðskiptaþvingunum.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa hins vegar sagt að þau þurfi 25 milljarða evra, jafnvirði um 3.888 milljarða króna, lán á næstu tveimur árum.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert