Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands, John Kerry og Sergei Lavrov, hafa setið á fundi í dag með það að markmiði að reyna að draga úr alþjóðlegri spennu vegna innlimunar Rússlands á Krímskaga og liðsafnaðar Rússa við landamærin að Úkraínu. Gert er ráð fyrir að fundurinn standi fram á kvöld.
Fram kemur í frétt AFP að ráðherrarnir fundi í húsakynnum rússneska sendiherrans í París höfuðborg Frakklands. Rússar hafa fullyrt að þrátt fyrir liðsafnaðinn við landamæri Úkraínu sé ætlunin ekki að ráðast inn í landið. Hins vegar hvatti Lavrov í dag vestræn ríki til þess að styðja þá tillögu að Úkraína yrði hlutlaust sambandsríki og að þau héruð landsins sem væru að mestu byggð rússneskumælandi fólki fengju meiri sjálfstjórn.
Þessi áætlun Rússa þýddi meðal annars að hluti Úkraínu gæti gert rússnesku að öðru opinberu tungumáli og fengið aukið vald yfir eigin málum. Stjórnmálaskýrendur telja að markmið Rússa sé að grafa undan ríkisstjórn landsins sem líkleg sé til þess að halla sér í vesturátt.
Stjórnvöld í Úkraínu hafa gagnrýnt þessa tillögu Rússa harðlega og hvatt þá til þess að huga frekar að minnihlutahópum í Rússlandi sem ættu undir högg að sækja. Þar á meðal fólki af úkraínsku bergi brotið.