Fjöldamorð í stúdentapartýi

Fimm stúdentar voru stungnir til bana í heimahúsi í Calgary í Kanada síðustu nótt. Sonur lögreglumanns í borginni situr í varðhaldi vegna málsins.

Lögreglan var kölluð að heimahúsi í rólegu úthverfi Calgary á klukkan 1:20 eftir miðnætti aðfaranótt þriðjudags, þar sem háskólastúdentar fögnuðu því að önninni var lokið. Þegar lögregla kom á staðinn voru þrír stúdentanna látnir með stungusár og tveir til viðbótar létust af sárum sínum á sjúkrahúsi um nóttina.

Hin látnu eru öll á þrítugsaldri, fjórir karlmenn og ein kona. Lögregla kom að fyrsta fórnarlambinu liggjandi í blóði sínu á grasflöt fyrir framan húsið. Þau voru öll stúdentar við Calgary háskóla.

23 ára gamall karlmaður var handtekinn skömmu síðar í nágrenninu eftir leit lögreglu, m.a. hjálp þefhunda. Hinn grunaði er stúdent frá Calgary háskóla og á leið í meistaranám í lögum við sama skóla. Hann er sonur hátt setts lögreglumanns í borginni, samkvæmt kanadísku fréttastofunni CBC.

Verstu fjöldamorð í sögu borgarinnar

Lögreglustjóri Calgary, Rick Hanson, segir að þetta séu verstu fjöldamorð í sögu borgarinnar. „Við höfum aldrei áður séð jafnmarga myrta á einum vettvangi. Aðkoman var hryllileg,“ sagði hann á fréttamannafundi í dag.

Hinn grunaði var boðinn í partýið og fór þangað að lokinni kvöldvakt í matvöruverslun í borginni. „Hinn grunaði kom í partýið, náði í stóran hníf og réðst á fórnarlömbin eitt af öðru. Hann stakk þau ítrekað,“ sagði Hanson.

Enn er algjörlega á huldu hvers vegna slíkt morðæði rann á manninn. Lögreglustjórinn hefur rætt við lögreglumanninn sem er faðir hins grunaða og lýsir honum sem niðurbrotnum manni vegna morðanna.

CBC fréttastofann ræddi við nágrannann í næsta húsi við voðaverkin, Doug Jones. Að hans sögn virtist vera um fullkomlega eðlilegt háskólapartý að ræða. Aðeins voru um 12-15 manns á staðnum sem höfðu fengið sér nokkra bjóra að sögn Jones.

„Það var hávær tónlist. Allir virtust þekkjast. Þegar það kólnaði og myrkrið skall á þá færðu þau sig inn í húsið og eftir það var ekki hægt að heyra að neitt gengi á þarna. Það voru nokkrir bílar aukalega í götunni og fólk sem kom og fór, en ekkert óeðlilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert