„Hópur karla nauðgaði mér samtímis“

Frá mótmælum á Tahrir-torgi í Kaíró höfuðborg Egyptalands.
Frá mótmælum á Tahrir-torgi í Kaíró höfuðborg Egyptalands. AFP

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum í Egyptalandi hefur færst mjög í aukana frá því að átök brutust út í landinu árið 2011. Hundruð kvenna sem tekið hafa þátt í mótmælum síðan þá hafa orðið fyrir kynferðislegum árásum án þess að ofbeldismennirnir hafi verið sóttir til saka. Þetta kemur fram í frétt AFP og vitnað í nýja skýrslu mannréttindasamtaka sem starfa í Egyptalandi.

Fram kemur í fréttinni að ríkisstjórnir Egyptalands sem setið hafa við völd undanfarin ár hafi ekki tekið á ofbeldi gagnvart konum sem aftur hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir þátttöku kvenna í pólitísku umbótastarfi í landinu. Ennfremur segir að 250 tilkynningar hafi borist um kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum frá því í nóvember 2012 og fram í janúar á þessu ári. Margar árásirnar hafi átt sér stað á Tahrir-torginu í Kaíró höfuðborg Egyptalands eða í nágrenni þess þar sem mótmæli hafa farið fram.

Þá segir að fórnarlömbin og vitni að árásunum beri saman um það hvernig þær eigi sér iðulega stað. Tugir karlmanna umkringi fórnarlambið, rífa utan af því fötin og snerti það síðan á kynferðislega hátt. Í sumum tilfellum hafi fórnarlömbunum verið nauðgað af fjölda karla sem gjarnan hafi verið vopnaðir bareflum, hnífum og öðrum vopnum. Hins vegar hafi enginn árásarmaður verið látinn sæta ábyrgð á gerðum sínum af yfirvöldum. 

Pólitískan vilja til aðgerða skortir

„Karlmennirnir voru eins og ljón í kringum kjöt. Hendur þeirra voru alls staðar á líkamanum mínum og undir tættum fötunum mínum,“ er haft eftir einu fórnarlambanna sem ráðist var á í mótmælum í júní 2012. „Buxurnar mínar og nærbuxur voru rifnar af mér með ofbeldisfullum hætti og hópur karla nauðgaði mér samtímis með fingrunum. Skyndilega lá ég á jörðinni og þeir rifu í hárið á mér, fæturna og hendurnar á meðan þeir héldu áfram að nauðga mér.“

Mannréttindasamtökin hafa gagnrýnt stjórnvöld í Egyptalandi harðlega fyrir að bregðast ekki við kynferðisofbeldi gagnvart konum í landinu og sjá til þess að réttlætið nái yfir árásarmennina. Ekki þyrfti aðeins að vernda og leggja áherslu á rétt kvenna til þess að þurfa ekki að sæta ofbeldi heldur einnig að tryggja að þær gætu tekið þátt í að móta framtíð Egyptalands. Stjórnvöld hefðu tekið skref í þá átt að koma á lagaumbótum í þessa veru en hins vegar skort pólitískan vilja til þess að taka á ofbeldi og mismunun í garð kvenna.

Lara Logan, fréttamaður bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS, varð fyrir grófu kynferðisofbeldi …
Lara Logan, fréttamaður bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS, varð fyrir grófu kynferðisofbeldi á Tahrir-torgi í febrúar 2011 þegar hún varð viðskila við samstarfsfólk sitt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert