Segir viðbrögð Vesturlanda hlægileg

Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn John McCain.
Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn John McCain. TATYANA ZENKOVICH

Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn John McCain segir viðbrögð Vesturlanda við aðgerðum rússneskra stjórnvalda í Úkraínu vera næstum því hlægileg. Hann gagnrýnir leiðtoga Vesturlanda og segir að þau verði að taka harðari afstöðu í málinu.

Í frétt AFP kemur fram að McCain hafi sagt að nýlegar refsiaðgerðir Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gegn Rússum væru „veikustu viðbrögð sem hægt væri að ímynda sér“.

Hann er um þessar mundir á ferð og flugi um Eystrasaltsríkin og ræddi í dag við fjölmiðla í Vilnius, höfuðborg Litháens.

„Ef ríkin í Evrópu sem og Bandaríkin grípa ekki til harðari aðgerða, þá trúi ég því að Pútín verði áræðnari,“ sagði repúblikaninn meðal annars.

Hann bætti því við að það væri skammarlegt ef Vesturlöndin myndu ekki styðja við bakið á úkraínsku þjóðinni eftir allt sem hún hefði þurft að ganga í gegnum.

Þá lýsti hann jafnframt yfir áhyggjum af stöðunni í Moldóvu og hvatti til þess að Bandaríkin og Eystrasaltsríkin myndu auka hernaðarlega samvinnu sín á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert