Stúlkunum haldið í höfuðvígi íslamista

Nígerískar stúlkur í búðum flóttamanna sem flúið hafa átökin milli …
Nígerískar stúlkur í búðum flóttamanna sem flúið hafa átökin milli hryðjuverkasamtakanna Boko Haram og stjórnarhers Nígeríu. AFP

Nú hefur verið staðfest að alls 129 stúlkum var rænt þegar herskáir íslamistar í Boko Haram hryðjuverkasamtökunum réðust á stúlknaskóla í Nígeríu aðfaranótt þriðjudags. Talið er að þeim sé haldið í Sambisa frumskóginum, þar sem Boko Haram á víggirtar tjaldbúðir.

Misvísandi fregnir bárust í dag um það að meirihluta stúlknanna hefði verið sleppt eða þeim tekist að flýja. Það mun þó ekki vera rétt og fékk Afp fréttaveitan það staðfest hjá hátt settum embættismann síðla dags í dag að 129 stúlkum hefði verið rænt og flestar væru enn í haldi.

Blekktu hryðjuverkamennina og hlupu burt

Um 15 stúlkum tókst þó að flýja strax sömu nótt og þeim var rænt, þegar vörubíllinn sem flutti þær bilaði. Þær stukku af pallinum og hlupu út í óbyggðir þar sem þær földu sig fram í birtingu. Nokkrum stúlkum til viðbótar tókst svo að flýja í dag og gátu þær greint frá því hvert farið var með þær.

Þær blekktu hryðjuverkamennina með því að segjast þurfa að gera þarfir sínar í skjóli, en lögðu þess í stað á flótta og fengu aðstoð hirðingja af Fulani þjóðflokknum við að komast aftur til mannabyggða. Mikil örvinglan ríkir meðal foreldra stúlknanna sem eru í haldi, en þeir segja þó að frásögn stúlknanna sem slapp veki þeim vonir um að sjá dætur sínar aftur á lífi.

SÞ fordæma mannránið

Stjórnvöld í ríkinu Borno, þar sem stúlknaskólinn er, hétu í dag 50 milljónum naira, sem nemur rúmum 33 þúsund krónum, hverjum þeim sem gefið gæti upplýsingar sem gætu leitt til frelsunar stúlknanna.

Forseti Nígeríu, Goodluck Jonathan, kallaði helstu yfirmenn öryggismála ríkisins á sinn fund í dag til að ræða stöðu mála í ljósi nýjustu atburða, en stuttu áður en þetta umfangsmikla mannrán var framið var gerð banvænasta sprengjuárás í sögu höfuðborgar landsins.

Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fordæmdi ránið á stúlkunum í dag og sagði það alvarlegt brot á alþjóðarétti og mannréttindum að gera skólabörn að skotmarki. 

Sjá einnig:

Foreldrar rændu stúlknanna líða martröð

Nokkrum stúlkum tókst að flýja

Yfir 100 stúlkum rænt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert