„Verið kyrr. Ekki hreyfa ykkur“

Ferjan sökk á skömmum tíma í hafið.
Ferjan sökk á skömmum tíma í hafið. AFP

Getur verið að farþegar suðurkóresku ferjunnar hafi fengið fyrirmæli sem urðu til þess að þeir náðu ekki að komast úr henni áður en hún sökk? Svo virðist sem flestir farþeganna hafi tekið fyrirmæli áhafnarinnar alvarlega, að halda kyrru fyrir í sætum og í klefum og bíða eftir hjálp sem átti að berast innan tíðar. 

Ættingjar farþega og áhafnar ferjunnar sem sökk við Suður-Kóreu bíða nú örvætingarfullir eftir fréttum af ástvinum sínum. Tæplega 300 manns er saknað en flestir þeirra eru menntaskólanemar sem voru á leið í frí. Svo virðist sem farþegarnir hafi ekki fengið tækifæri til að reyna að bjarga sér úr ferjunni áður en hún sökk.

Vitað er að 179 manns lifðu af og hafa margir þeirra greint frá því að farþegum hafi ítrekað verið sagt að bíða í sætum eða klefum eftir að ferjan lenti í vandræðum í gær.

Kim Sung-Mook sagðist í samtali við blaðamann hafa reynt sitt besta til að bjarga um 30 menntaskólanemum. „Skipið var að sökkva og það var ekkert fyrir þau til að halda í,“ segir Sung-Mook. „Þau gátu ekki skriðið upp gólfið, það var svo blautt og það hallaðist svo mikið.“ Nokkur þeirra gátu gripið í brunaslöngu sem hann hélt í og komumst þannig í skjól. „Þau voru bara svo mörg, ég gat ekki hjálpað þeim öllum.“

Einn nemandi sem bjargað var sagði að flestir farþeganna hefðu haldið kyrru fyrir í sætum sínum í um 30 til 40 mínútur eftir að ferjan lenti fyrst í vandræðum, samkvæmt fyrirmælum frá áhöfninni.

„Skilaboðin voru endurtekin aftur og aftur. Verið kyrr. Ekki heyra ykkur,“ segir Huh Young-Ki. „Við veltum fyrir okkur hvort við ættum að hreyfa okkur. Hvort við ættum við ekki að reyna og komast út. En í tilkynningu sem hljómaði í ferjunni sagði að hjálp væri á leiðinni eftir tíu mínútur.“

Mikill agi ríkir innan menntakerfisins í Suður-Kóreu og má því ætla að nemendurnir, sem voru í meirihluta í farþegahópnum, hafi hlýtt fyrirmælunum.

„Ef okkur hefði bara verið sagt að fara út fyrr, þá hefðu fleiri getað hoppað í sjóinn,“ sagði einn þeirra sem bjargað var. „En flestir voru bara kyrrir eins og þeim var sagt.“

Frétt mbl.is: „Pabbi, ekki hafa áhyggjur“

Frétt mbl.is: Enn tæplega 300 saknað

Unnið að björgun farþega ferjunnar.
Unnið að björgun farþega ferjunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert