Marquez minnst um allan heim

Gabriel Garcia Marquez kom síðast fram opinberlega á 87 ára …
Gabriel Garcia Marquez kom síðast fram opinberlega á 87 ára afmæli sínu þann 6. mars síðast liðinn, þegar hann ræddi við fjölmiðla utan við heimili sitt. Þá lá vel á honum. AFP

Þjóðarleiðtogar og rithöfundar um allan heim hafa í dag vottað virðingu sína kólumbíska nóbelsverðlaunahafanum Gabriel Garcia Márquez sem lést í gær. „Þúsund ára einsemd og sorg vegna fráfalls merkasta Kólumbíumanns allra tíma! Slíkir risar deyja aldrei,“ tísti forseti Kólumbíu, Juan Maneul Santos, á Twitter

Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Kólumbíu vegna dauða hans.

Barack Obama Bandaríkjaforseti minntist Márquez einnig í dag og sagði heiminn nú hafa misst einn sinn merkasta hugsuð úr rithöfundastétt. Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagðist í dag alltaf hafa dáðst að einstakri andagift Márquez, skarpri hugsun og hreinskilni. „Það var mér mikill heiður að öðlast vinskap hans og fá að njóta hans frábæra hjartalags og snjalla huga í meira en 20 ár.“

Síleski rithöfundurinn Isabel Allende segist þakka það Márquez að hún hafi látið slag standa og hellt sér út í ritstörf. „Í bókunum hans fann ég fyrir mína eigin fjölskyldu, landið mitt og fólk sem ég hafði þekkt alla ævi, litina, taktinn og fjölbreytnina í heimsálfunni minni.“

„Rödd Suður-Ameríku sem varð rödd alls heimsins“

Márquez fæddist 6. mars 1927 í Kólumbíu og var því 87 ára þegar hann lést í gær í kjölfar veikinda. Hann var alinn upp af ömmu sinni og afa og frænkum við strendur Karíbahafsins. Hann sótti innblástur bæði í menningu spænskra landnema, frumbyggja Kólumbíu og svartra þræla.

„Ég hef alltaf gaman að því að helsta hrósið sem bækurnar mínar fá eru fyrir frjótt ímyndunarafl, þegar sannleikurinn er sá að það er ekki ein einasta lína í verkum mínum sem á sér ekki einhverja stoð í raunveruleikanum. Vandinn er sá að raunveruleikanum við Karíbahaf svipar til villtustu hugaróra,“ sagði Márquez sjálfur eitt sinn.

Hann er einn ástsælasti rithöfundur allra tíma í Suður-Ameríku og talinn einhver merkasti rithöfundur hins spænskumælandi heims,

„Hann var rödd Suður-Ameríku sem  varð rödd alls heimsins. Ímyndunarafl gerði okkur öll ríkari, og fráfall hans gerir okkur öll fátækari,“ sagði Jose Manuel Barroso, forseti Evrópusambandsins, í dag.

Áhrif Márquez og vinsældir ná langt út fyrir hinn spænskumælandi heim. Meistaraverk hans, Hundrað ára einsemd, hefur verið þýdd á 35 tungumál og selst í meira en 30 milljónum eintaka. Honum er eignað að vera einn helsti upphafsmaður töfraraunsæis, sem varð lengi einkenni suður-amerískra bókmennta, þar sem hinu hversdagslega er fléttað saman við hið draumkennda og ævintýralega án þess að þar sé greint á milli.

Nóbelsskáld í slagsmálum

Það gustaði af Márquez þegar hann var upp á sitt besta. Hann var aðdáandi byltingarinnar á Kúbu og stofnaði til umdeildrar vináttu við leiðtogann Fidel Castro, sem kallaði hann „mann sem býr yfir gæsku barnsins og feiknarlegum hæfileikum.“ Á 10. áratugnum varð Marquez milliliður í samskiptum Bandaríkjanna og Kúbu í gegnum Castro og annan valdamikinn vin sinn, Bill Clinton.

Um tíma átti hann í frægum ritdeilum við perúska nóbelskáldið Mario Vargas Llosa, sem enduðu á slagsmálum þeirra úti á götu í Mexíkóborg árið 1976, þar sem Vargas Llosa kýldi hann.

Þeir hafa þó grafið stríðsöxina og Llosa minntist Márquez í dag sem merks rithöfundar. „Verk hans náðu til fólks og upphófu bókmenntir. Skáldsögur hans munu lifa og halda áfram að öðlast nýja lesendur um allan heim,“ sagði Vargas Llosa við fjölmiðla í Perú í dag.

Marquez flutti til Mexíkóborgar árið 1961 þar sem skrifaði sín helstu verk. Samhliða skáldskapnum vann hann við ritstörf fyrir bæði fjölmiðla og auglýsingaskrifstofur til að verða sér úti um tekjur. „Svo lengi sem maður átti viskí var engin eymd,“ sagði hann eitt sinn.

Grimmur veruleiki Suður-Ameríku

Þegar hann lauk við Hundrað ára einsemd árið 1967 skuldaði Marquez 9 mánaða leigu og hafði varla efni á því að senda handritið með pósti til útgefandans í Argentínu.

Aðrar helstu bækur hans sem komið hafa út í íslenskri þýðingu Guðbergs Bergssonar eru m.a. Ástin á tímum kólerunnar, Frásögn um margboðað morð og Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu. Síðasta skáldsaga Márquez var Minningar um döpru hórurnar mínar, sem kom út árið 2004.

Márquez hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1982. Í þakkarræðu sinni sagði hann það ekki aðeins vera ritstíl sinn sem vakið hefði athygli nóbelsakademíunnar, heldur ekki síður „yfirþyrmandi veruleiki“ hins grimma einræðis og borgarastyrjalda í Suður-Ameríku.

Hann lætur eftir sig eiginkonu, Mercedes Barcha og tvo syni, Rodrigo og Gonzalo.

Sjá einnig: Gabriel Garcia Márquez látinn

Fidel Castro og Gabriel Garcia Marquez ræða saman í veislu …
Fidel Castro og Gabriel Garcia Marquez ræða saman í veislu í Havana í mars árið 2000. AFP
Gabriel Garcia Marquez og Bill Clinton var vel til vina. …
Gabriel Garcia Marquez og Bill Clinton var vel til vina. Þessi mynd er frá fundi þeirra í Cartagena í Kólumbíu árið 2007. AFP
Gabriel Garcia Marquez og eiginkona hans Mercedes Barcha ferðuðust með …
Gabriel Garcia Marquez og eiginkona hans Mercedes Barcha ferðuðust með lest til heimabæjar hans í Kólumbíu, Aracataca, árið 2007. AFP
Gabriel Garcia Marquez brosti út að eyrum þegar honum var …
Gabriel Garcia Marquez brosti út að eyrum þegar honum var tilkynnt að hann hlyti Nóbelsverðlaunin árið 1982. AFP
Garcia Marquez var ákaflega vinsæll og dáður í Suður-Ameríku og …
Garcia Marquez var ákaflega vinsæll og dáður í Suður-Ameríku og um allan heim. AFP
Gabriel Garcia Marquez og eiginkona hans Mercedes Barcha ferðuðust með …
Gabriel Garcia Marquez og eiginkona hans Mercedes Barcha ferðuðust með lest til heimabæjar hans í Kólumbíu, Aracataca, árið 2007 og var afar vel tekið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert