Neita að yfirgefa opinberar byggingar

Aðskilnaðarsinnar í Donetsk, í austurhluta Úkraínu, segjast ekki ætla að láta af aðgerðum sínum nema að Arseniy Yatsenyuk, starfandi forsætisráðherra og Olexander Turchynov, starfandi forseti, láti af völdum.

Denis Pushilin kom fram á blaðamannafundi í dag og talaði fyrir hönd hóps sem segist hafa stofnað sjálfstjórnarhérað í Donetsk. Hann segist styðja samkomulag sem Úkraínumenn, Rússar, Bandaríkjamenn og Evrópusambandið gerðu í Genf í vikunni um að þeir sem hafi hertekið opinberar byggingar í Úkraínu yfirgefi þær. Það ætti hins vegar líka að gilda fyrir Yatsenyuk og Turchynov. Þeir hefðu tekið yfir með ólögmætum hætti völd af réttkjörnum stjórnvöldum í Úkraínu.

Stjórnvöld í Úkraínu reyndu í dag að rétta sáttahönd í átt til þeirra sem vilja kljúfa sig frá Úkraínu og ganga til liðs við Rússa. Þau sögðust vera tilbúin til að fallast á sumrar kröfur þeirra um meiri sjálfstjórn og að rússneska verði viðurkennt sem opinbert tungumál í austurhéruðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert